Osta -og rúsínufylltar kjúklingabringur
Við höfum áður verið með uppskrift af fylltum kjúklingabringum, en það er alltaf skemmtilegt að leika sér aðeins með hráefnið. Í kvöld nennti enginn út í búð og þess vegna var ákveðið að breyta uppskriftinni aðeins eftir því hvað væri til í ísskápnum.
Fylling
- 1 stk gráðostur (125 gr)
- 3-4 msk rjómaostur
- 2 tsk fetaostur fyrir hverja bringu sem á að fylla
- 5-6 tsk góð sulta, t.d. hindberjasulta frá St. Dalfour
- 3-4 lúkur rúsínur, eða bara eftir smekk
Aðferð
- Hitið ofninn í 190 °C
- Stappið saman gráðosti og rjómaosti í skál (við bíðum aðeins með fetaostinn) og hrærið sultunni og rúsínunum saman við. Það ætti að koma út úr þessu fallega bleik eða fjólublá kássa, sem er einstaklega góð með smá ritz kexi. Nautnaseggirnir geta vottað það.
- Skerið smá vasa á kjúklingabringurnar og holið þær varlega að innan með beittum hníf.
- Setjið 2 tsk af fetaost í hverja bringu, munið að mæla ostinn fyrst fyrir allar bringurnar svo maður sé ekki að vaða með skeiðina úr óelduðum kjúklingnum ofan í dósina. Það er ekkert svo góð hugmynd.
- Bætið fyllingunni varlega inn í bringurnar og lokið fyrir með tannstönglum. Það getur verið ágætt að binda bringurnar saman líka, því gumsið vill vella út þegar kjúklingurinn byrjar að eldast.
- Setjið í eldfast mót.
- Saltið og piprið.
- Sullið smávegis af góðri olíu yfir bringurnar.
- Eldið í ofni í 30-35 mínútur.
- Þegar kjúklingurinn er tilbúinn, má færa hann af fatinu og setja á diska. Leyfið honum að jafna sig í stutta stund og takið svo tannstönglana og snærið af honum.
- Takið skeið eða sleif og skafið vel af fatinu. Það ætti að vera slatti af vökva og jukki úr fyllingunni í botninum. Þessu er hrært vel saman og 2-3 msk eða svo af vatni bætt saman við. Þá er komin kröftug og góð sósa með matnum.
- Með þessu er gott að hafa salat eða sæta kartöflustöppu.
- Setjið allt á disk og berið að andliti.
This slideshow requires JavaScript.
You must be logged in to post a comment.