Bananabrauðbollur
Fyrir 6 eða 7 árum síðan rakst ég á frábæra uppskriftasíðu sem heitir Cafe Sigrún, þegar ég var að leita að uppskrift af góðu bananabrauði. Ég hef notað þessa uppskrift í grunninn síðan en breytt aðeins og bætt eftir hentugleika (og því hvað sé til í búrinu).
Stundum sofnar maður á verðinum yfir ávaxtakörfunni og á meðan jólaeplin og mandarínurnar eru alltaf vinsæl yfir hátíðarnar þá kemur fyrir að ávextir liggi undir skemmdum á þessum tíma. Það getur verið gott að afhýða og skera niður ávexti, sem eru farnir að nálgast síðasta neysludag, og setja þá í frystir. Þá er komin góð viðbót í skyrþeyting, sem er frábær morgunmatur.
Í morgun rak ég augun í tvo banana sem voru vægast sagt þroskaðir. Því svartari sem þeir eru, því betri eru þeir í bananabrauð, en ég átti ekki nóg í brauð svo ég ákvað að gera hálfa uppskrift og búa til bollur í staðinn.
Innihald
- 100 gr heilhveiti eða spelt
- 20 gr haframjöl
- 1 tsk vínsteinslyftiduft
- 1 tsk salt
- 1 msk agave síróp eða annað gott síróp (ég sleppti því í þetta sinn því ég átti það ekki til)
- 25 gr xylitol (eða 45-50 gr sykur)
- 2 egg (bætti við auka eggi því 3ja ára dóttur minni fannst svo gaman að brjóta það)
- 3 bananar (því þroskaðri, því betra)
- 2 msk ólívuolía, kókosolía eða önnur góð olía
Aðferð
- Hitið ofninn í 180°C
- Hrærið saman egg og xylitol (eða sykur).
- Stappið bananana aðeins og blandið saman við eggjahræruna.
- Bætið olíu og sírópi og hrærið áfram.
- Setjið heilhveiti/spelti í aðra skál og bætið haframjöli, salti og lyftidufti út í.
- Blandið mjölinu rólega saman við bananahræruna.
- Ég notaði muffinsform til að baka bollurnar í, en það má alveg eins setja þær á bökunarpappír. Degið er ekki mjög þykkt svo það gæti verið að því hætti við að renna út ef það er ekki í móti.
- Smyrjið formið vel og dreyfið deginu jafnt í formin.
- Setjið inn í heitan ofn og bakið í 15 mínútur.
- Berið fram með smjöri og osti.
Viðbætur
- Það er afar gott að bæta furuhnetum saman við degið.
- Það er hægt að baka stærri uppskrift og frysta. Ef bökuð er stærri uppskrift er um að gera að nota gott köku-/brauðform og þá er baksturstíminn lengdur í 40 mín.
- Döðlur virka mjög vel í bananabrauði og þá er best að nota ferskar, eða vera búinn að leggja þurkaðar döðlur aðeins í bleyti.
- Ég nota oft 1/3 af íslensku byggmjöli á móti heilhveitinu/speltinu. Brauðið verður aðeins þyngra og matarmeira fyrir vikið.
- Ef það eru börn á heimilinu, fáið þau endilega til að hjálpa til. Þó ekki sé nema bara til að hræra í mjölinu eða skúbba bananastöppunni í skál.
This slideshow requires JavaScript.
You must be logged in to post a comment.